Sprotasamstarf

Síðastliðinn vetur fengu Víkurskóli, Grundaskóli á Akranesi og Stapaskóli í Reykjanesbæ styrk úr Sprotasjóði til samstarfs.
Mánudaginn 22. september héldu svo skólarnir þrír sameiginlegan starfsdag í Víkurskóla.
Hver skóli bauð upp á þrjár málstofur sem voru keyrðar tvisvar og svo skiptist fólk í umræðuhópa eftir hádegi.
Dagskráin var ekki af verri endanum!
8:40-09:00 Morgunkaffi
09:00-9:05 Þuríður Óttarsdóttir, skólastjóri Víkurskóla setur daginn - íþróttasalurinn
09:05-09:15 Sigurður Arnar, skólastjóri Grundaskóla segir frá Sprotaverkefninu
09:15-10:15 Málstofur fyrri umferð
10:15-10:45 Kaffihlé
10:45 -11:45 Málstofur seinni umferð
12:00-13:00 Matur - matsalur
13:00-14:00 Umræðuhópar
14:00-14:30 Samantekt, Jón Haukur skólastjóri Stapaskóla - íþróttasalur
14:30-15:00 Léttar veitingar í boði Víkurskóla – matsalur
Hér má lesa nánar um málstofurnar sem skólarnir voru með:
Textíll og kolefnisspor
Umsjón: Ásrún Ágústsdóttir - Víkurskóli
Í þessari málstofu er ætlunin að fjalla um og varpa ljósi á hvernig textílmennt getur styrkt einstaklinginn til að takast á við loftslagsmál, efla umhverfisvitund og samfélagslega ábyrgð í gegnum skapandi ferli.
Skýr markmið, sýnilegur árangur
Umsjón: Yrsa Rós Brynjudóttir og Fiona Elizabeth Oliver. - Víkurskóli
Í málstofunni verður fjallað um hvernig leiðsagnarnám og samþætting fjögurra námsgreina í Uglum styður við aukinn skilning, skýrleika og framfarir nemenda. Sérstök áhersla verður lögð á árangursviðmið og hvernig þau nýtast til að gera námið markvissara og sýnilegra bæði fyrir nemendur og foreldra.
Leiklist og söngleikir
Umsjón: Einar Viðarsson og Sigurður Arnar Sigurðsson – Grundaskóli
Í Grundaskóla er löng hefð fyrir öflugu leiklistarstarfi og uppsetningu á stórum frumsömdum söngleikjum. Síðustu ár hefur 10. bekkur sett upp söngleik sem hluta af lokaverkefni sínu við skólann. Allir nemendur taka þátt og koma að sýningunni með beinum hætti. Rætt um uppbyggingu, áherslur og framkvæmd.
Opni skólinn – þróun stoðþjónustu
Umsjón: Ingibjörg Stefánsdóttir og Berta Ellertsdóttir - Grundaskóli
Í Grundaskóla hefur verið unnið eftir hugmyndafræði Opna skólans þar sem leitað er skapandi lausna í skólastarfinu. Stoðþjónusta skólans hefur verið endurskipulögð þannig að hún falli að fjölbreyttu námsskipulagi á öllum aldursstigum. Hér er starfsskipulag og verklag kynnt. Rætt um breyttar áherslur í stoðþjónustu þar sem greiningar eru ekki lykill að framkvæmd og þróun starfshátta.
Krakkar með krökkum
Umsjón: Aðalheiður Þráinsdóttir – Grundaskóli
Krakkar með krökkum er þróunarverkefni sem var unnið í samstarfi við KVAN. Verkefnið felst í að efla samkennd og virkni eldri ungmenna til að leiðbeina þeim sem yngri eru. Verkefnið á að efla jákvæða leiðtogahegðun og vera forvörn gegn einelti. Einnig verða kynntar niðurstöður úr rannsókn sem var gerð á verkefninu. Farið yfir helstu áherslur og framkvæmd.
Heillaspor og Hugarfrelsi - nálgun í hæglátu og jákvæðara skólasamfélagi
Umsjón: Haukur, Guðrún og Krummi - Stapaskóli
Í þessari málstofu er lögð áhersla á hvernig kennarar geta nýtt Heillaspor (e. nurture) nálgun og aðferðafræði Hugfrelsis til að skapa hæglátara, tengdra og jákvæðara skólasamfélag. Fjallað er um leiðir til að efla öryggi, traust og vellíðan í skólastofunni með áherslu á tengslamyndun, tilfinningagreind og sjálfsvitund nemenda. Kennarar fá hagnýtar hugmyndir og verkfæri til að styðja við félagslega og tilfinningalega færni nemenda, byggja upp jákvæð samskipti og skapa rými fyrir ró og einbeitingu í námi. Málstofan hentar öllum sem vilja dýpka skilning sinn á mannúðlegu skólastarfi og efla eigin starfsánægju og áhrif.
Náttúrufræði á eldra stigi
Umsjón: Brynja Stefánsdóttir- Stapaskóli
Í þessari málstofu verður fjallað um hvernig uppbygging náttúruvísindakennslu er í Stapaskóla. Sérstök áhersla er lögð á samþættingu bóklegs náms og verklegra verkefna, bæði innan og utan skólastofunnar, þar sem útinám og skapandi lausnaleit gegna lykilhlutverki.
Við kynnum einnig Stapavöku, árlega vísindakeppni fyrir nemendur í 7.–10. bekk, þar sem nemendur vinna að fjölbreyttum rannsóknarverkefnum og kynna niðurstöður sínar á lifandi og skemmtilegan hátt.
Stapavakan hefur reynst öflugur vettvangur til að efla gagnrýna hugsun, samvinnu og sjálfstæði nemenda.
Leikgleði og leikur í námi
Umsjón: Kristín Björk, Rut Bergmann, Bryndís Ósk og Sigr. Heiða- Stapaskóli
Leikur er meginnámsleið ungra barna og lykillinn að því að byggja upp áhuga og innri hvata til náms. Á yngstu stigum grunnskólans er því brýnt að halda áfram að nýta leikinn sem drifkraft í námi og þróa leiðir til að tengja hann við hæfniviðmið og markmið skólastarfs. Fjallað verður um hvernig leikgleði getur skapað jákvætt námsumhverfi, eflt samskipti og samvinnu nemenda og lagt grunn að árangursríkri námsvegferð.
Hugsandi skólastofa í Víkurskóla - kennarar verða nemendur!
Umsjón: Loftur Þórarinn Guðmundsson - Víkurskóli
Í þessari málstofu fá þátttakendur að kynnast hugsandi skólastofu í framkvæmd. Þátttakendur verða settir í hlutverk nemenda og fá að kynnast aðferðarfræðinni á eigin skinni.